Hríðskotarifflar og handsprengjur á sjúkrahúsinu

Ísraelski herinn kveðst hafa fundið hríðskotariffla, handsprengjur, skotheld vesti og …
Ísraelski herinn kveðst hafa fundið hríðskotariffla, handsprengjur, skotheld vesti og fleira tengt hryðjuverkastarfsemi Hamas-samtakanna í dag á Al-Shifa sjúkrahúsinu í Gasa. AFP/Ísraelski herinn

Ísraelsher kveðst hafa fundið hríðskotariffla, handsprengjur, skotheld vesti og fleira tengt hryðjuverkastarfsemi Hamas-samtakanna í dag á Al-Shifa sjúkrahúsinu í Gasa.

Í myndbandi sem ísraelski herinn birti á samfélagsmiðlum fyrr í dag má sjá myndband innan úr sjúkrahúsinu, en þar getur að líta vopnin sem herinn segir að sé eign hryðjuverkasamtakanna. Þá hefur Ísraelsríki birt myndir af hríðskotarifflum og fleiru sem herinn á að hafa fundið inni á sjúkrahúsinu.

Heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem stýrt er af hryðjuverkasamtökunum Hamas, hafnar þessu alfarið.

Segja að sjúkrahúsið hafi verið notað fyrir hryðjuverkastarfsemi

Bandaríkjastjórn lýsti því yfir í gær að gögn bandarískra leyniþjónustustofnanna staðfestu að Hamas og hryðjuverkasamtökin Heilagt stríð væru með stjórnstöð sína á Al-Shifa sjúkrahúsinu. Undir sjúkrahúsinu væru svo undirgöng sem væru notuð til að styðja við starfsemi samtakanna og til að halda fólki í gíslingu.

„Við höfum upplýsingar um að Hamas og Heilagt stríð noti nokkur sjúkrahús á Gasasvæðinu, þar á meðal Al-Shifa, og eru með göng undir þeim til að leyna og styðja við hernaðaraðgerðir sínar og halda gíslum,“ sagði John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum.

„Við höfum upplýsingar sem staðfesta að Hamas notar þetta tiltekna sjúkrahús fyrir stjórnun og sennilega geymslu á búnaði og vopnum. Þetta er stríðsglæpur,“ sagði Kirby í gær.

Hann sagði við blaðamenn í dag að Bandaríkin hafi ekki vitað fyrir fram um aðgerðir Ísraelshers sem hófust í nótt í sjúkrahúsinu, en herinn kveðst vera að uppræta starfsemi hryðjuverkamanna á sjúkrahúsinu.

Nota fólk sem mannlega skildi

Ísraelar hafa lengi haldið því fram að Hamas-samtökin noti sjúkrahús og aðra almenna innviði sem skjól fyrir starfsemi sína. Saka þeir Hamas um að nota óbreytta borgara sem mannlega skildi.

Matthew Miller, talsmaður utanríkisráðuneytisins, sagði að Hamas hefði grafið stjórnstöðvar sínar undir sjúkrahúsum í mörg ár og kallaði eftir því að samtökin leyfðu óbreyttum borgurum að vera fluttir á brott. „Við myndum styðja að óháður þriðji aðili, virtur þriðji aðili, myndi framkvæma þennan brottflutning,“ sagði hann og bætti við:

„Við vitum að ríkisstjórn Ísraels myndi einnig styðja slíkt skref. Spurningin er, mun Hamas leyfa að sjúklingar verði fluttir af sjúkrahúsum, eða munu þeir halda áfram að vera notaðir sem mannlegir skildir?"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert