Kínverjar fordæma ummæli Bidens

Biden og Xi í Kaliforníu.
Biden og Xi í Kaliforníu. AFP/Brendan Smialowski

Kínverjar hafa fordæmt ummæli Joes Bidens Bandaríkjaforseta um að Xi Jinping, forseti Kína, sé einræðisherra.

Leiðtogarnir tveir ræddu saman í bandaríska ríkinu Kaliforníu og var þetta í fyrsta sinn í eitt ár sem þeir funduðu augliti til auglitis.

„Svona orðræða er algjörlega röng og þetta er óábyrg pólitík. Kína fordæmir þetta,” sagði Mao Ning, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.

Biden og Xi ásamt fleiri embættismönnum í Kaliforníu.
Biden og Xi ásamt fleiri embættismönnum í Kaliforníu. AFP/Brendan Smialowski

Sammála um að berjast gegn fentanyl

Biden og Xi samþykktu á fundi sínum, sem stóð yfir í fjórar klukkustundir, að efla hernaðarleg samskipti á milli landanna tveggja, jafnvel þótt Biden hafi talað um Xi sem einræðisherra.

Einnig samþykktu þeir að berjast gegn framleiðslu efnanna sem eru notuð til að búa til lyfið fentanyl sem hefur valdið dauða fjölda fólks í Bandaríkjunum. Xi sagðist finna til með fórnarlömbum lyfsins í landinu.

Leiðtogarnir tveir voru aftur á móti fjarri því að vera sammála um Taívan. Xi sagði Biden að hætta að vopnavæða eyjuna og að ekkert gæti stöðvað sameiningu hennar og Kína.

Joe Biden á blaðamannafundi.
Joe Biden á blaðamannafundi. AFP/Brensan Smialowski

Þegar blaðamaður spurði Biden hvort hann væri enn á þeirri skoðun að Xi væri einræðisherra líkt og hann sagði í júní svaraði Biden: „Sjáum til, hann er það. Hann er einræðisherra á þann hátt að hann er náungi sem er að stjórna landi, kommúnistaríki, sem er byggt á aðeins einu stjórnarfyrirkomulagi sem er allt öðruvísi en okkar,” sagði forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert