Myndskeið: Upphaf hryðjuverkanna 7. október

Myndband sem sýnir upphaf hryðjuverkaárásar Hamas-samtakanna inn í Ísrael 7. …
Myndband sem sýnir upphaf hryðjuverkaárásar Hamas-samtakanna inn í Ísrael 7. október út frá búkmyndavél sem Hamas-liði bar í árásinni. Skjáskot/CNN

Fréttamiðillinn CNN hefur undir höndum myndskeið sem sýnir upphaf hryðjuverkaárásar Hamas inn í Ísrael 7. október út frá búkmyndavél sem ungur Hamas-liði bar í árásinni. Um 1.200 manns, aðallega saklausir borgarar, voru myrtir í árásinni.

Í myndskeiðinu, sem CNN fékk frá ísraelska hernum, sést er hryðjuverkamennirnir brjóta sér leið í gegnum landamærin frá Gasa til Ísraels og öskra „Allahu Akhbar“, eða „Guð er máttugur“. Þeir halda svo á leið til samyrkjubús þar sem þeir áttu eftir að fremja ótrúleg voðaverk.

Í færslu CNN á samfélagsmiðlinum X má sjá þriggja mínútna myndskeiðið.

Fagnaði er hann sá látið fólk á veginum

Skotbardagi sést í myndbandinu á milli Hamas-liða og ísraelsks hermanns. Hamas-liðarnir fella ísraelska hermanninn og fagna vel. Ungi maðurinn, sem ber búkmyndavélina, snýr svo myndavélinni að sér og kynnir sig sem 24 ára gamlan mann. Hann kveðst vera búinn að drepa tvo ísraelska hermenn og biður guð um að gefa sér sigur.

Seinna í myndskeiðinu sést er hann keyrir um á veginum og verður vitni að dauðum Ísraelum á götum úti. Hann fagnar dauða þessa fólks ákaft.

Undir lok myndbandsins átti maðurinn í skotbardaga við ísraelskan hermann, en lifði þann bardaga ekki af. Voðaverkin sem framin voru þennan dag voru bara rétt að byrja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert