Særðir flýja fótgangandi í leit að skjóli

Fjöldi sjúklinga flúði Al-Shifa sjúkrahúsið í morgun eftir að Ísraelsher …
Fjöldi sjúklinga flúði Al-Shifa sjúkrahúsið í morgun eftir að Ísraelsher fyrirskipaði rýmingu. AFP

Hundruð manna flúðu fótgangandi í morgun frá Al-Shifa sjúkrahúsinu á Gasa eftir að forstjóri þess sagði að Ísraelsher hefði fyrirskipað að rýma ætti bygginguna. Á sjúkrahúsinu voru um 2.000 sjúklingar, læknar og fólk á flótta. 

Sást til flóttafólks, sjúklinga, lækna og hjúkrunarfræðinga leggja leið sína frá sjúkrahúsinu í átt að sjávarbakkanum á meðan háværar sprengingar heyrðust á svæðinu.  

Enn fjöldi fólks á sjúkrahúsinu

Haft er eftir blaðamanni AFP að hann hafi að minnsta kosti séð 15 lík meðfram vegi þar sem einnig mátti sjá stórskemmdar verslanir og bíla á hvolfi.  

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti, á vegum Hamas-hryðjuverkasamtakanna, segir að 120 særðir, ásamt ótilgreindum fjölda fyrirbura, séu enn á sjúkrahúsinu.  

Ísraelar hafa þrýst á hernaðaraðgerðir inni á sjúkrahúsinu og leitað að aðgerðamiðstöð Hamas sem þeir telja vera undir víðáttumikilli byggingunni. Vígamenn Hamas hafa hins vegar alfarið neitað því. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert