Elsti forseti sögunnar orðinn enn eldri

Joe Biden fagnar 81 árs afmæli í dag.
Joe Biden fagnar 81 árs afmæli í dag. AFP/Brendan Smialowski

Joe Biden Bandaríkjaforseti fagnar 81 árs afmæli í dag. Spurningar um aldur hans og andlega heilsu halda áfram að plaga kosningabaráttu hans fyrir kosningarnar á næsta ári.

Biden er elsti forseti í sögu Bandaríkjanna og verði hann endurkjörinn verður hann 82 ára í upphafi annars kjörtímabils og 86 ára þegar því lýkur.

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og líklegur frambjóðandi Repúblikana, er þó ekki mikið yngri. Hann er 77 ára gamall en líklegt er að þeir tveir mætist á nýjan leik í kosningunum á næsta ári.

Joe Biden náðaði kalkúnana Liberty og Bell í dag.
Joe Biden náðaði kalkúnana Liberty og Bell í dag. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Þrír fjórðu segja Biden of gamlan

Kannanir sýna að kjósendur hafa verulegar áhyggjur af aldri Bidens.

Þrír fjórðu Bandaríkjamanna (74%) sögðu að Biden væri of gamall til að bjóða sig fram í annað kjörtímabil í könnun sem gerð var af fréttamiðlunum ABC News og Washington Post í september. Í sömu könnun kom fram að 50% Bandaríkjamanna töldu Trump vera of gamlan til að bjóða sig fram í kosningunum 2024.

Könnun fréttamiðilsins CNN sem gerð var í New Hampshire-ríki, sem mun halda forval í janúar, leiddi í ljós að 56% líklegra kjósenda Demókrata í forvali sögðu aldur vera þeirra stærsta áhyggjuefni í sambandi við Biden.

Í könnun Reuters/Ipsos um miðjan september lýstu kjósendur áhyggjum sínum af aldri Bidens og hæfni til embættis. 77% svarenda, þar á meðal 65% Demókrata, sögðu að Biden væri of gamall til að vera forseti, en aðeins 39% sögðu að Biden væri nógu skarpur andlega fyrir forsetaembættið.

Áratugalöng hefð er fyrir því að náða kalkúna í aðdraganda …
Áratugalöng hefð er fyrir því að náða kalkúna í aðdraganda þakkargjörðarhátíðarinnar. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Gerir lítið úr aldrinum með léttu gríni

Biden grínast þó oft um aldur sinn.

„Ég vil bara að þið vitið að það er erfitt að verða sextugur. Erfitt,“ sagði hann í gríni fyrr í dag þegar hann náðaði kalkúnana Liberty og Bell í Hvíta húsinu í dag. Það er áratugalöng hefð fyrir því að forsetinn náði kalkúna fyrir þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum.

„Þetta er 76 ára afmæli þessa viðburðar. Ég vil að þið vitið að ég var ekki þarna fyrst þegar þetta var gert,“ sagði hann kíminn.

Samkvæmt könnunarmeðaltali RealClearPolitics þá mælast Trump og Biden hnífjafnir ef þeir skyldu mætast í kosningum á næsta ári. Um þessar mundir mælist Trump að meðaltali með 1,6% meira fylgi en Biden.

ABC News
Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert