Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas, segir vopnahlé við Ísrael vera í augsýn.
Þar með hafa vonir aukist um að fjöldi fólks sem samtökin tóku höndum sem gísla í Ísrael 7. október verði látinn laus.
Ísraelsk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um stöðuna á samningaviðræðunum.
Meirihluti þeirra 240 gísla sem Hamas tóku höndum er ísraelskir ríkisborgarar, sumir hverjir ung börn og eldra fólk. Aðeins hefur nokkrum gíslum verið sleppt úr haldi, þeir frelsaðir af Ísraelsher eða lík þeirra fundist.
„Við erum nálægt því að ná samningi um vopnahlé,” sagði Haniyeh í yfirlýsingu sem var send frá skrifstofu hans til AFP.
Byssumenn Hamas drápu um 1.200 manns, að sögn Ísraela, flesta almenna borgara, þegar þeir fóru yfir landamærin til Ísraels 7. október. Árásin er sú mannskæðasta í sögu Ísraels.
Í hefndarskyni hófu Ísraelar linnulausar loftárásir á Gasasvæðið, þar sem Hamas fara með völd, og sendu þangað herlið.
Að sögn stjórnvalda Hamas hafa um 13.300 manns fallið á Gasasvæðinu, þar af þúsundir barna.