Frelsisflokknum spáð sigri í Hollandi

Frá vinstri: Dil­an Yesil­goz, leiðtogi VVD, og Geert Wilders, formaður …
Frá vinstri: Dil­an Yesil­goz, leiðtogi VVD, og Geert Wilders, formaður PVV. AFP

Útgönguspár segja hollenska Frelsisflokkinn (PVV) líklegasta sigurvegarann í þingkosningum þar í landi. Geert Wilders, formaður PVV, hefur verið bendlaður við öfga­hægri­stefnu í stjórn­mál­um og í gegnum tíðina sagst vilja banna múslimatrú í landinu.

Samkvæmt skoðanakönnunum markaðsrannsóknarstofunnar Ipsos er Frelsisflokkurinn með mun meira fylgi en stærsti keppinautur sinn, sem er samstarfsframboð Græna vinstriflokksins og Verkamannaflokksins í Hollandi (GroenLinks og PvA). Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Wilders, sem er búinn að vera þingmaður í 25 ár, hyggst halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlega úrsögn Hollands úr Evrópusambandinu (ESB) – atkvæðagreiðslu sem hann hefur nefnt „Nexit“. Holland er eitt af stofnríkjum ESB.

Hann hef­ur í gegn­um tíðina lýst yfir mik­illi and­stöðu við trú­ar­brögð íslams og flótta­menn. Hann hefur aftur á móti mildað málflutning sinn nú er nær dregur kosningum og í gær sagði hann að til væru mikilvægari mál en að banna íslam og að hann ætlaði sér að setja þá vinnu á ís.

Wilders flutti ræðu fyrir flokksmenn sína fyrr í kvöld.
Wilders flutti ræðu fyrir flokksmenn sína fyrr í kvöld. AFP

Erfitt að finna samstarfsflokk

Ef PVV vinnur er ljóst að sigurinn myndi hrista upp í bæði hollenskum og evrópskum stjórnmálum. Flokkurinn myndi þó sennilega eiga erfitt með að finna samstarfsflokk.

Enginn flokkur getur unnið nógu mörg sæti til þess að stjórna sjálfur og hinr þrír stærstu flokkarnir hafa gert það skýrt að þeir hafi engan áhuga á því að vinna með Wilders.

Vinstrisamstarfið, undir forystu Frans Timmermans, er talið munu hafna í öðru sæti, með 26 sæti á þingi.

Fyrr voru miklar líkur taldar á því að Hol­lend­ing­ar kysu fyrsta kven­kyns for­sæt­is­ráðherra lands­ins en Dil­an Yesil­goz, leiðtogi hægri­flokks­ins VVD og arftaki Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra, sæk­ist eft­ir embætt­inu. Sá flokkur er talinn munu lenda í þriðja sæti, samkvæmt útgönguspá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert