Gengið til kosninga í Hollandi

Leiðtogar flokkanna sem sækjast eftir kjöri í kosningum til ríkisstjórnar …
Leiðtogar flokkanna sem sækjast eftir kjöri í kosningum til ríkisstjórnar í Hollandi. AFP/Remko de Waal

Hollendingar ganga nú til kosninga nýrrar ríkisstjórnar, en Mark Rutte fráfarandi forsætisráðherra gaf það út fyrr á árinu að hann myndi ekki sækjast eftir embættinu að nýju eftir 13 ár í embættinu.

Enn sem komið er segja rýnendur of mjótt á munum í skoðanakönnunum til þess að spá fyrir um niðurstöðu kosninganna. Þær gáfu þó til kynna að kjósendur væru óákveðnir fyrir kosningadag. 

AFP-fréttaveitan hefur eftir 54 ára Hollendingnum Vincent Spijker:

„Þessar kosningar eru ólíkar öðrum, því hver sem er getur unnið. Ég var búinn að sigta valið niður í tvo frambjóðendur, þar til að ég kastaði bara upp á það og valdi annan þeirra.“

Áherslur í kosningabaráttunni hafa að mestu verið á húsnæðisskorti og kaupmætti innanlands, en á meðan hefur lítið farið fyrir heimsmálunum eins og átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs og loftslagsbreytingum.

Helstu frambjóðendur til hægri

Líkur eru á að Hollendingar kjósi fyrsta kvenkyns forsætisráðherra landsins en Dilan Yesilgoz, leiðtogi hægriflokksins VVD og arftaki Rutte, sækist eftir embættinu. 

Yesilgoz hefur tekið harðlínu andstöðu gegn innflytjendum og heitið því að fækka innflytjendum í landinu. Hún sjálf er fædd í Tyrklandi og kom til Hollands með föður sínum sem var í leit að hæli. 

Yesilgoz vakti undrun þegar hún sagði flokk sinn viljugan til stjórnarsamstarfs við flokk Geerts Wilder, PVV, en sá flokkur er bendlaður við öfgahægristefnu í stjórnmálum. 

Dilan Yesilgoz skilar atkvæði sínu.
Dilan Yesilgoz skilar atkvæði sínu. AFP/Koen van Weel

Wilder hefur í gegnum tíðina lýst yfir mikilli andstöðu gegn trúarbrögðum íslams og flóttamönnum, en viðurkenndi að hann væri fús til þess að leggja þá andstöðu til hliðar, því „stærri verkefni“ biðu hans.

Dilan Yesilgoz og Geert Wilder taka þátt í kappræðum þann …
Dilan Yesilgoz og Geert Wilder taka þátt í kappræðum þann 18. nóvember. AFP/Robin Utrecht

Þingmaðurinn Pieter Omtzigt stofnaði nýjan flokk fyrir kosningarnar og hefur verið titlaður af stuðningsmönnum sínum „Sankti Pétur“, en margir líta til hans til þess að umbylta hollenskum stjórnmálum. 

Omtzigt var í upphafi baráttunnar líklegur til sigurs, en nú virðist stuðningur við hann hafa dvínað til muna. 

Pieter Omtzigt situr fyrir svörum.
Pieter Omtzigt situr fyrir svörum. AFP/John Thys

Vinstri breiðfylking í mótun

Yesilgoz, Wilder og Omtzigt eru öll frambjóðendur á hægri vængnum, en Frans Timmermans vonast til þess að veita þeim mótspyrnu með framboði á vinstri vængnum. 

Timmermans, sem er 62 ára, hefur gegnt ýmsum opinberum embættum í gegnum tíðina, en hefur undanfarið unnið að loftslagsaðgerðum Evrópusambandsins.

Vinsældir hans virðast hafa aukist á seinustu metrunum, en talið er að kjósendur á vinstri vængnum séu að sameina krafta sína til stuðnings við Timmermans. 

Frans Timmermans á kjörstað.
Frans Timmermans á kjörstað. AFP/John Thys

Enn sem komið er gæti allt gerst, en kjörstaðir loka klukkan átta í kvöld á íslenskum tíma.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert