Leiðtogar fagna: „Fyrstu góðu fréttirnar“

Palestínskur drengur stendur í húsarústum í Rafah á suðurhluta Gasasvæðisins …
Palestínskur drengur stendur í húsarústum í Rafah á suðurhluta Gasasvæðisins í morgun. AFP/Said Khatib

Leiðtogar fjölmargra landa hafa fagnað samkomulaginu sem náðist á milli Ísraels og Hamas um vopnahlé og lausn gísla.

Joe Biden Bandaríkjaforseti þakkaði leiðtogum Katars og Egyptalands fyrir „mikla leiðtogahæfni” þeirra hvað varðar samkomulagið.

„Ég er ótrúlega ánægður með að sumar af þessum hugrökku sálum…munu hitta fjölskyldur sínar aftur um leið og þessi samningur er kominn í gagnið að fullu,” sagði Biden og átti við gíslana.

Reykjarmökkur á Gasasvæðinu.
Reykjarmökkur á Gasasvæðinu. AFP/Jack Guez

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði samninginn „mikilvægt skref við að hugga fjölskyldur gíslanna og til að takast á við mannúðarkrísuna á Gasa”.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði samkomulagið vera mikil tíðindi og að það ætti að nota til að útvega almenningi á Gasasvæðinu neyðaraðstoð.

Ísraelskir hermenn ásamt hundi á Gasasvæðinu.
Ísraelskir hermenn ásamt hundi á Gasasvæðinu. AFP

Kínversk stjórnvöld sögðust vona að tíðindin leiddu til minni neyðar á Gasasvæðinu, átökunum linni og að það dragi úr spennu á milli Ísraels og Hamas.

Stjórnvöld í Rússland sögðu samninginn „fyrstu góðu fréttirnar frá Gasa í mjög langan tíma”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert