Írska lögreglan greinir frá því að fimm einstaklingar, þar af þrjú börn, hafi verið fluttir á sjúkrahús eftir alvarlega árás í Dublin, höfuðborg Írlands, í dag.
Írski fjölmiðillinn RTÉ segir að grunur leiki á að fólkið hafi verið sært með hnífi.
Fram kemur á vef BBC að atvikið hafi átt sér stað skömmu eftir 13:40 við Parnell Square East sem er skammt frá O'Connell Street, sem er ein fjölfarnasta gata borgarinnar.
Karl, kona og þrjú ung börn særðust í árásinni að sögn lögreglu. Konan og ung stúlka hlutu alvarlega áverka.
Búið er að girða svæðið af og er lögregla á vettvangi.
Dómsmálaráðherra Írlands, Helen McEntee, hefur birt yfirlýsingu þar sem hún segist vera skelfingu lostin eftir þessa hræðilegu árás. Hugur hennar sé hjá þeim sem særðust, þá sérstaklega hjá börnunum, foreldrum þeirra og ættingjum.