Karl vopnaður hnífi réðst á þrjú börn, karl og konu fyrir utan grunnskóla í Dublin á öðrum tímanum í dag. Eitt barnanna, fimm ára stúlka, hlaut alvarlega áverka.
Hin börnin, sex ára stúlka og fimm ára drengur, slösuðust minna. Drengurinn hefur þegar verið útskrifaður af spítala.
Fullorðin kona er einnig alvarlega slösuð.
Talið er að fórnarlömbin hafi verið að koma út úr grunnskólanum þegar árásin átti sér stað.
Fólk á vettvangi afvopnaði árásarmanninn og hélt honum niðri þangað til að lögregla kom á svæðið.
Sá grunaði er á sextugsaldri og hefur verið færður undir læknishendur. Ekki er leitað að neinum öðrum sem stendur.
Lögreglan í Dublin telur ekki að um hryðjuverk hafi verið að ræða.