Geert Wilders, formaður Frelsisflokksins (PVV), hefur hrósað sigri í hollensku þingkosningunum.
Nú þegar búið er að telja nánast öll atkvæði er útlit fyrir að flokkurinn nái 37 sætum á þingi af 150, sem er langt umfram stærsta keppinaut flokksins, sem er samstarfsframboð Græna vinstriflokksins og Verkamannaflokksins. Hlaut samstarfsframboðið 25 þingsæti.
Þá hlaut miðhægri flokkurinn VVD 25 þingsæti.
„PVV flokkurinn verður ekki lengur hundsaður,“ sagði Wilders. „Við munum stjórna.“
Wilders hefur verið bendlaður við öfgahægristefnu í stjórnmálum og í gegnum tíðina sagst vilja banna múslimatrú í landinu. Þá hefur hann einnig haldið því fram að hann vilji halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlega úrsögn Hollands úr Evrópusambandinu (ESB).
Til að Wilders geti uppfyllt markmið sitt og orðið „forsætisráðherra allra“ þarf PVV að mynda meirihluta í samstarfi við aðra þinglokka, og ná a.m.k. 76 þingsætum.
Það gæti þó reynst hægara sagt en gert en áður en kosningarnar hófust útilokuðu stærstu flokkarnir samstarf við PVV vegna stefnu flokksins. Talið er að stjórnarmyndunarviðræður muni taka nokkra mánuði.