Vopnahléið hefst ekki í dag

Vopnahléið átti að hefjast klukkan 10 að staðartíma.
Vopnahléið átti að hefjast klukkan 10 að staðartíma. AFP/Mahmud Hams

Ísraelsk stjórnvöld hafa tilkynnt að vopnahlé á Gasasvæðinu, sem ráðgert var að myndi hefjast klukkan 10 að staðartíma í dag, muni ekki hefjast fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

Tzachi Hanegbi, þjóðaröryggisráðgjafi Ísraels, segir að ekki sé búið að blása fangaskiptin af, sem voru skipulögð samhliða vopnahléinu, en þau muni ekki eiga sér stað í dag. 

Átti að hefjast í morgun

Í fyrrinótt tilkynntu Hamas og ísraelsk stjórnvöld að þau hefðu komist að samkomulagi um fjögurra daga vopnahlé í mannúðarskyni gegn fangaskiptum.

Var ráðgert að vopnahléið myndi hefjast klukkan 10 í dag að staðartíma, eða klukkan 8 á íslenskum tíma. Ætluðu Ísraelsmenn og Hamas-liðar svo að skiptast á föngum um hádegisbil að staðartíma. Var ráðgert að 50 gíslum yrði sleppt í skiptum fyrir 50 Palestínumenn sem sitja í ísraelsku fangelsi.

Uppfært klukkan 07.25:

Ónafngreindur palestínskur embættismaður sagði töfina á vopnahléinu mega rekja til viðræðna „á síðustu stundu“ er vörðuðu hvaða gíslum yrði sleppt og hvernig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert