Góðar líkur á framlengdu vopnahléi

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP/Miriam Alster

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í kvöld að frelsun gíslanna sem Hamas-samtökin tóku 7. október sé aðeins „byrjun“ og að góðar líkur séu á því að vopnahléið á Gasaströndinni verði framlengt.

„Ég held að líkurnar á því séu raunverulegar,“ sagði Biden spurður út í hugsanlega framlengingu vopnahlésins, þegar hann ræddi við blaðamenn í Nantucket í Massachusetts-ríki Bandaríkjanna í dag. „Þetta er bara byrjun, en hingað til hefur þetta gengið vel.“

Ísra­el sleppti í dag 39 palestínskum föng­um úr fang­els­um í skipt­um við þá 24 gísla sem Ham­as-hryðju­verka­sam­tök­in slepptu fyrr í dag. Næstu fjóra daga er gert ráð fyrir að um 50 gísl­um verði sleppt úr haldi Ham­as og að Ísra­el láti 150 palestínska fanga lausa í heildina.

Vill „endurnýja“ tveggja ríkja lausnina

Biden hvatti til frekari tilrauna til þess að koma á frið og sagði þörf vera á því „að endurnýja okkar lausnir til þess að stefna að þessari tveggja ríkja lausn“.

Árás Hamas-vígamanna þann 7. október egndi til hefndarárása Ísraelsmanna á landi og lofti. Nú hafa um 15 þúsund manns verið drepnir á Gasa að sögn heilbrigðisráðuneytisins á Gasaströndinni, sem segir að þar af séu 6 þúsund börn.

Um 1.200 manns voru drepnir í árás Hamas-samtakanna, sem tóku einnig 240 gísla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert