Ísrael hefur sleppt 39 föngum úr fangelsum í bæði Ísrael og Palestínu, í skiptum við þá 24 gísla sem Hamas-hryðjuverkasamtökin slepptu fyrr í dag. Næstu fjóra daga er ráðgert að um 50 gíslum verði sleppt úr haldi Hamas og að Ísrael láti 150 palestínska fanga lausa.
28 föngum var sleppt úr fangelsi á Vesturbakkanum samkvæmt AFP-fréttaveitunni. Jafnframt var 11 föngum hleypt úr fangelsi í Jerúsalem, höfuðborg Ísraels, og fluttir til austurhluta borgarinnar, að sögn Samtaka palestínskra fanga.
Samtökin segja að frelsuðu fangarnir hafi verið fluttir með langferðabílum í fylgd herökutækja. Þeim hafi mætt mannmergð sem tók fagnandi á móti þeim.
24 gíslum var sleppt úr haldi Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Gasaströndinni í dag, í tengslum við fjögurra daga vopnahlé á milli Ísraelshers og Hamas-liða sem hófst í morgun.