Vopnahlé hafið á Gasa

Vopnahléið er hafið.
Vopnahléið er hafið. AFP/Zain Jaafar

Fjögurra daga vopnahlé milli Ísraelshers og Hamas-liða hófst í morgun og er ráðgert að fangaskipti fari fram síðar í dag.

Samkomulag náðist um að tímabundið hlé skyldi gert á átökunum frá klukkan sjö að staðartíma, sem er um klukkan fimm að íslenskum tíma.

Er ráðgert að þrettán konum og börnum sem hefur verið haldið á Gasasvæðinu verði sleppt úr haldi klukkan 16 að staðartíma. Í kjölfarið verði Palestínumönnum sem haldið er föngnum í ísraelskum fangelsum einnig sleppt.

190 verði eftir í haldi

Næstu fjóra daga er ráðgert að a.m.k. 50 gíslum verði sleppt úr haldi Hamas. Er áætlað að um 190 verði þá eftir í haldi hryðjuverkasamtakanna.

Í skiptum fyrir 50 gísla ætla stjórnvöld í Ísrael að sleppa 150 palestínskum föngum.

Vopnahléið átti að hefjast í gær en vegna ágreinings um hvar og hvernig fangaskiptin ættu að fara fram var því frestað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert