Ísraelsk yfirvöld segja að 14 gíslum sem voru í haldi hryðjuverkasamtakanna Hamas á Gasasvæðinu verði sleppt í dag. Þess í stað verður 42 palestínskum föngum sleppt úr ísraelskum fangelsum.
Fangelsismálayfirvöld í Ísrael segja að fangarnir 42, bæði karlkyns og kvenkyns, verði látnir lausir samkvæmt ákvæðum vopnahléssamningsins sem felur í sér að Hamas fær lausa þrjá fanga á móti hverjum gísl sem þeir sleppa.
Í dag er annar dagur af fjögurra daga vopnahléi.
Móðir taílensks gísl, sem sleppt var í gær, sagði CNN að hún hafi grátið af hamingju þegar hún frétti að dóttir sín væri orðin frjáls. Í gær var ekki vitað hvaða fólk yrði frelsað fyrr en fólkið var komið á ísraelska grundu.
Í gær var 24 gíslum sleppt úr haldi Hamas, þar af 13 frá Ísrael, fyrir 39 fanga úr ísraelskum fangelsum.
„Ég brast í grát þegar ég sá hana í tveimur myndböndum. Ég þekkti hárið á henni og hvernig hún gengur venjulega. Ég hélt að þetta væri örugglega hún þegar ég sá konu ganga að rútu í rauðum kjól með hennar hárgreiðslu,“ sagði Boonyarin Srichan, móðir Nutthawaree Munkan, við CNN í síma á laugardag.
Það var einnig fagnað er palestínsku föngunum var sleppt á Vesturbakkann en þar sást fólk veifa bæði fána Palestínu og hryðjuverkasamtakanna Hamas.