Frans páfi hefur aflýst ferð sinni á COP28 loftlagsráðstefnuna sem hefst í Dúbaí á fimmtudaginn vegna veikinda.
Páfinn, sem 86 ára gamall, er með inflúensu og lungnabólgu að því er fram kemur í tilkynningu frá Vatíkaninu.
Fyrr í dag greindi Vatíkanið frá því að Frans páfi ætlaði að fara til Dúbaí þrátt fyrir að hafa verið veikur um helgina en læknar ráðlögðu honum að halda kyrru fyrir.
Frans páfi hefur átt við ýmis heilsufarsvandamál að stríða á þessu ári. Í mars var hann lagður inn á sjúkrahús vegna berkjubólgu og í júní gekkst hann undir aðgerð vegna kviðslits.
Á loftlagsráðstefnunni í Dúbaí var reiknað með að páfinn myndi gagnrýna ríki heims fyrir skort á aðgerðum í loftlagsbreytingum og reyna að fá þau til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.