Skotinn til bana í Norrköping í gær

Tilkynnt var um mann sem fannst með skotsár í Marielund …
Tilkynnt var um mann sem fannst með skotsár í Marielund í Norrköping um klukkan átta í gærkvöld að staðartíma. Hann var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum. mbl.is/Atli Steinn

Maður á þrítugsaldri var skotinn til bana í miðborg Norrköping í Svíþjóð í gærkvöld. Seinna í gærkvöld var annar maður á þrítugsaldri handtekinn, grunaður um aðild að verknaðinum.

Tilkynnt var um mann sem fannst með skotsár í Marielund í Norrköping um klukkan átta í gærkvöld að staðartíma. Hann var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús þar sem hann lést af sárum sínum. Sænska ríkisútvarpið greindi frá.

Ekki vitað hvort einn eða fleiri hafi verið að verki

„Lögregla er á vettvangi að reyna að setja saman atburðarás, taka niður upplýsingar frá mögulegum vitnum og vinna að mögulegum handtökum á þeim sem bera ábyrgð á voðaverkinu. Við vitum ekki hvort um einn eða fleiri er að ræða á þessari stundu,“ sagði Angelica Forsberg, talsmaður lögreglunnar við sænska ríkisútvarpið.

Að öðru leyti verst lögregla frétta af málinu og er ekki tilbúin að ræða hvort maðurinn hafi verið skotinn innan dyra eða utan.

Yfirheyrt nokkra og hvetja fleiri til að gefa sig fram

Lögregla hefur yfirheyrt nokkra sem kunna að hafa vitneskju um málið og óskar eftir að aðrir gefi sig fram sem kunna að hafa slíka vitneskju.

Mikil óöld hefur geisað í Svíþjóð um nokkurn tíma en ekkert kemur fram í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins hvort lögregla telji skotárásina í Norrköping tengjast þeim átökum sem Foxtrot og Dalen-glæpaklíkurnar hafa háð með skot- og sprengjuárásum á báða bóga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert