Fjölskyldur fórnarlamba í skotárásinni í Sandy Hook-grunnskólanum 2012 hafa áhuga á að semja við samsæriskenningasmiðinn Alex Jones, sem var gert að greiða fjölskyldunum 1,5 milljarða bandaríkjadala (200 milljarða króna) í bætur en lýsti síðan yfir gjaldþroti.
Nýtt tilboð kveður á um að Jones greiði fjölskyldunum að lágmarki 85 milljónir bandaríkjadala árlega á næstu 10 árum (rúmlega 11 milljarðar króna á ári). Nýja tilboð gerir einnig ráð fyrir því að að Jones greiði fjölskyldunum helming af öllum sínum tekjum sem nema a.m.k. 9 milljónum dollara á ársgrundvelli (1,2 milljarða króna).
Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið. Jones viðurkenndi að hann hefði ítrekar farið með ósannar fullyrðingar um andlát fórnarlambanna, sem leiddu til þess að fjölskyldurnar urðu fyrir áreiti.
Jones var dæmdur til að greiða fjölskyldum fórnarlamba alls 1,5 milljarða dala. Hann hafði verið dæmdur af kviðdómi til að greiða fjölskyldunum 965 milljónir dala í október. Þann 11. nóvember sl. ákvað dómari málsins að þyngja refsinguna um 473 milljónir dala. Í öðru dómsmáli gegn Jones, sem fór fram í Texas, var Jones að auki dæmdur til að greiða 50 milljónir dala til foreldra sem misstu sex ára son sinn í skotárásinni.
Jones og fyrirtæki hans, Free Speech Systems, hafa síðan þá sótt um gjaldþrotaskipti en dómari dæmdi í seinasta mánuði að gjaldþrot Jones skyldi ekki hindra hann frá því að borga skuldir sínar til fjölskyldnanna.
Í dómskjölunum segir að lögfræðingar fjölskyldnanna hafi gagnrýnt Jones fyrir að halda áfram „að njóta eyðslusamra lífsstíls síns“ og að hafa „eytt um það bil 900 þúsund dollurum“ síðan hann sótti um gjaldþrotaskipti.
Lögmaður Jones svaraði ekki beiðni BBC um viðtal.