Svíar að skipta um skoðun á förufólki

Sænskur lögregluþjónn gætir aðaltorgsins í Rinkeby, í útjaðri Stokkhólms, en …
Sænskur lögregluþjónn gætir aðaltorgsins í Rinkeby, í útjaðri Stokkhólms, en glæpaalda og gengjastríð hafa geisað þar í mörg ár. AFP/Jonathan Nackstrand

Fáir hafa verið jafneindregnir talsmenn viðtöku förufólks frá framandi löndum og dásemda fjölmenningarsamfélagsins og sænskir jafnaðarmenn. Þar til núna þegar þeir játa að innflytjendastefna flokksins undanfarna áratugi hafi verið mistök.

Það er ekki lítil játning hjá Jafnaðarmannaflokknum, kjölfestuflokki sænskra stjórnmála, sem hefur mótað stjórnarstefnuna þar að mestu leyti undanfarna öld. Þar á meðal innflytjendastefnuna, sem flokkurinn hefur til þessa varið með kjafti og klóm.

Hefur þó ekki skort gagnrýnendurna, enda hefur á undanförnum árum magnast óöld í landinu, þar sem glæpagengi förufólks hafa tekist á með vélbyssum og sprengjuárásum. Um leið blasir við að góð áform um samlögun fólks frá framandi menningarsamfélögum hafa fullkomlega mistekist, svo talað er um að í landinu séu fleiri en eitt samhliða samfélag, sem eiga sér fáa snertifleti og fæsta góða.

Lengst af hafa jafnaðarmenn skellt skollaeyrum við slíkum ábendingum, jafnvel neitað því að vandinn sé til staðar og tókst lengi vel að fá sænska fjölmiðla til þess að taka þátt í þeim feluleik með sér, þar sem frásagnir af slíkum vandræðum væru aðeins vatn á myllu öfgaflokksins Svíþjóðardemókrata. En viti menn, afneitunin hefur einmitt orðið til þess að styrkja þá.

Leyniskýrsla opinberuð

Viðurkenning jafnaðarmanna kom fram í innanhússskýrslu flokksins, sem Aftonbladet komst yfir, en eftir að hún komst í hámæli var hún eindfaldlega birt og þar er ekkert svigrúm til túlkana eða misskilnings. Fyrrnefnd vandamál, glæpaaldan, samlögunarleysið og uppgangur trúarofstækis, allt var það rakið til hinnar mislukkuðu innflytjendastefnu, sem flokkurinn innleiddi.

„Við höfum sem þjóð ekki breytt rétt,“ segir Lawen Redar, þingmaður flokksins og aðalhöfundur skýrslunnar. „Við þurfum að vera mjög sjálfsgagnrýnin í þeim efnum,“ bætir hún við. „Ég áfellist bæði sjálfa mig og flokkinn fyrir það.“

Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að hina mislukkuðu stefnu flokksins í innflytjendamálum, þar sem djúpstæð en augljós vandamál voru ekki tekin alvarlega, megi rekja til ótta við að smána einstaka hópa förufólks, sæta ásökunum um rasisma og að vera líkt við Svíþjóðardemókrata.

Skýrslan er afdráttarlaus um að lausna vandans sé ekki að leita hjá Svíþjóðardemókrötum, en leiðtogi þeirra, Jimmie Åkeson, beið ekki boðanna við að herða mjög á stefnu síns flokks.

Sænskir jafnaðarmenn kunna hins vegar að feta sömu leið og skoðanasystkin þeirra í Danmörku, sem sneru óvænt við blaðinu í útlendingamálum fyrir nokkrum árum og tóku upp sambærilega stefnu og Danski þjóðarflokkurinn, en gerðu það í nafni danska velferðarkerfisins.

Það verður ekki vandalaust, m.a. vegna þess hve lengi menn hafa ekki viljað tala um vandann, en fyrir vikið vantar jafnvel nauðsynlega tölfræði. Ekki þó kannski síður vegna þess að í Svíþjóð, líkt og víða annars staðar í Evrópu, hefur árum saman verið gengið út frá því sem vísu að í fjölmenningunni felist augljós gæði, að innflytjendur auðgi land og þjóð, bæði menningarlega og efnahagslega.

Danir og aðrir grannar

Þar kynnu frændur þeirra í Danmörku hins vegar að geta komið til aðstoðar, því þeir hafa verið duglegir við að safna tölfræði og lesa úr henni. Danir fagna vinnufúsum höndum, en þeir fagna læknum meira en leigubílstjórum. Og þrátt fyrir að margt förufólk hafi til að bera frumkvöðulseðli og örvi efnahagslíf, þá eru líka margir sem nálgast efnahagslífið hinum megin frá og í fangelsum landsins er hlutfall þeirra hærra en vera bæri.

Eins má nefna að innflytjendur eru ekki allir eins eftir uppruna. Danskar hagtölur sýna að Danir og innflytjendur frá öðrum Evrópulöndum greiða sinn skerf og vel það í sameiginlega sjóði, en það á ekki við um innflytjendur og niðja þeirra sem koma frá Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku, Sómalíu, Pakistan og Tyrklandi.

Félagsleg spenna af þeim völdum einum er skiljanleg. Þegar við bætist mikill menningarmunur, afmörkuð hverfi innflytjenda, að ógleymdum glæpagengjunum, þá kemur varla á óvart að þolinmæði kjósenda bresti og þá fylgja flokkarnir yfirleitt á eftir.

Innan Evrópusambandsins er lítil eining um útlendingamál milli aðildarríkjanna, eins og glöggt kom í ljós á leiðtogafundi þess í Granada á Spáni í liðnum mánuði, en þolgæði almennings gagnvart fjölmenningarsamfélaginu er farið að minnka mun víðar, eins og hefur mátt sjá bæði af nýlegum kosningaúrslitum og mótmælum, jafnvel uppþotum, hér og þar í álfunni.

Fyrst sænskir jafnaðarmenn gera skipt um skoðun ætti það varla að vefjast fyrir öðrum flokkum í Evrópu. En þar með er síður en svo sagt að vænta megi aukins friðar um útlendingamál og förufólk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert