Henry A. Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er látinn 100 ára að aldri. Kissinger lést í gær, miðvikudag, en ekki var greint frá dánarorsök.
Kissinger var einn áhrifamesti diplómat Bandaríkjanna á síðustu öld. Hann var utanríkisráðherra þegar Richard Nixon gegndi embætti forseta og Gerald Ford sömuleiðis.
Kissinger var fæddur í Fürth í Þýskalandi 27. maí árið 1923 en fjölskylda hans flúði til Bandaríkjanna árið 1939. Var fjölskyldan af gyðingaættum,
Í tilkynningu frá ráðgjafafyrirtæki hans Kissinger Associates segir að fjölskyldan muni halda einkaútför en að minningarathöfn verði haldin seinna í New York.
Hann lætur eftir sig eiginkonu, Nancy, en þau voru gift í nær hálfa öld. Átti hann tvö börn úr fyrra hjónabandi og fimm barnabörn.