Lögreglan í Nordland-fylki í Noregi stendur frammi fyrir töluverðri áskorun í meintu manndrápsmáli – hún hefur þrjá menn í haldi, grunaða um manndráp og hlutdeild í manndrápi, en ekkert lík til að byggja væntanlega ákæru á.
Sjöunda júní í sumar sást Stian Hole, 41 árs gamall maður frá Bodø, í síðasta sinn á lífi, þá staddur í verslun í Hamarøy. Kom hann þar fram á upptöku öryggismyndavélar en síðan hefur ekkert til hans spurst.
Á miðvikudaginn gaf lögreglan það út að þremenningarnir hefðu verið handteknir daginn áður, allir á aldrinum 30 til 50 ára en einn þeirra hefur raunar legið undir grun síðan fljótlega eftir að tilkynnt var um hvarf Hole.
Engu líki er þó til að dreifa sem fyrr segir og útskýrir lögmaðurinn Marius Oscar Dietrichson, fyrrverandi formaður verjendadeildar norska lögmannafélagsins, fyrir norska ríkisútvarpinu NRK að þótt fræðilega sé það mögulegt að reka manndrápsmál fyrir dómi án þess að nokkrar jarðneskar leifar hafi komið fram sé það ekki heiglum hent í framkvæmd.
Aðeins fjórir áfellisdómar hafa fallið í manndrápsmálum án líks í Noregi.
Bendir Dietrichson á að færa þurfi sönnur á ýmislegt áður en unnt sé að sakfella í slíkum málum. „Fyrir það fyrsta þarf að sanna að fórnarlambið sé látið, það er ekki vandræðalaust án líks,“ segir hann, „þá þarf að sanna að ákærði hafi verið valdur að dauðanum. Til þess þarf almennt lík svo sýna megi fram á dánarorsök og tengingu ákærða við drápið.“
Bætir hann því við að verjandi ákærða muni ávallt nota það sem mótbáru að ekkert sé vitað um örlög „hins látna“, hann sé ef til vill í fullu fjöri einhvers staðar annars staðar í veröldinni, jafnvel í felum. Sé ekki hægt að útiloka þann möguleika sé ekki um manndrápsmál að ræða.
Undir þetta tekur Tor Haug vitanlega, enda verjandi þess sem lengst hefur legið undir grun í Hole-málinu.
„Menn hafa ekkert lík. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið er heldur engum glæpavettvangi til að dreifa, sönnunarbyrðin verður snúin,“ segir verjandinn og kveður lögreglu þurfa að snúa öllum steinum til að draga staðreyndir málsins fram og sýna fram á að réttur maður liggi undir grun.
Dietrichson lögmaður ítrekar hve dómar í manndrápsmálum án líks séu sjaldgæfir tölfræðilega séð, innan um alla dómana þar sem lík hefur fundist svo sem almennt er.
„Maður vill reyna að komast til botns í málinu sé það gerlegt. Lögreglunni ber skylda til þess leiki grunur á að refsivert athæfi hafi átt sér stað,“ segir lögmaðurinn að lokum.