Áætlað er að rúmlega 92 þúsund taki þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna COP28 og tengdum viðburðum í Dúbaí.
Stóru línurnar í málflutningi Íslands á ráðstefnunni verða m.a. að niðurgreiðslum á notkun jarðefnaeldsneytis verði hætt, útfösun á notkun jarðefnaeldsneyti og málefni freðhvolfsins og hafsins. Þá verður einnig lögð áhersla á markmið Parísarsáttmálans um að hitastig jarðar hækki ekki meira en 1,5°C .
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Yfir 80 fulltrúar fara frá Íslandi, þar á meðal formlega sendinefnd Íslands sem skipuð er fulltrúum frá forsætisráðuneytinu, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Umhverfisstofnun.
Til viðbótar við sendinefndina sækja þingmenn og fulltrúar frá Reykjavíkurborg, félagasamtökum og fyrirtækjum viðburði sem tengjast loftslagsráðstefnunni.
Ráðstefnan hófst formlega í gær og er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra komin út en hún verður með erindi á leiðtogaráðstefnu Loftslagssamningsins, sem fram fer í dag og á morgun.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, tekur þátt í fundum og hliðarviðburðum á ráðstefnunni, auk tvíhliðafunda með ríkjum og alþjóðastofnunum.
Meðal stærstu mála á dagskrá þingsins er hnattræn stöðutaka, þar sem lagt er mat á árangur ríkja. Þá verður rætt um aðgerðir til samdráttar, þar sem orkuskipti eru áherslumál, sem og hnattræn markmið um aðlögun að loftslagsbreytingum.
Þá er tekið fram í tilkynningu Stjórnarráðsins að Íslandi muni leggja ríka áherslu á að mannréttindi verði virt sem og að jafnréttismál verði í hávegum höfð.