Áhlaup á skemmtistaði samkynhneigðra

AFP/Olga Maltseva

Lögreglan í Moskvu réðst inn á nokkra skemmtistaði samkynhneigða, að því er fram kemur í rússneskum fjölmiðlum, degi eftir að hæstiréttur Rússlands ákvað að banna „LGBT-hreyfinguna“.

BBC greindi frá þessu í dag.

Gestum klúbbsins var haldið í skamma stund og vegabréf þeirra voru ljósmynduð í áhlaupunum seint í gær, að sögn miðilsins Ostorozhno Novosti á Telegram.

Lögreglan sagðist vera að leita að fíkniefnum, að sögn Ostorozhno Novosti. Borgaryfirvöld hafa ekki tjáð sig um málið enn sem komið er.

Myndir og myndband hafa birst á samfélagsmiðlum sem sýna lögreglubíl og lögreglumenn fyrir utan einn af klúbbunum.

Áhlaupin voru gerð í dag, degi eftir að hæstiréttur Rússlands lýsti því yfir að „almenningshreyfing LGBTQ+“ væru öfgasamtök og bannaði starfsemi þeirra um allt land.

Stjórnarskrá Rússlands var breytt árið 2020 til að skýra að hjónaband þýddi sambúð karls og konu. Sambúð samkynhneigðra er ekki viðurkennd í Rússlandi.

Stroka út samkynhneigða 

Á undanförnum árum hefur hinsegin samfélagið í landinu þurft að þola aukinn þrýsting frá yfirvöldum að sögn Steve Rosenberg, fréttamanni BBC í Moskvu. Árið 2013 voru samþykkt lög sem banna „áróður um óhefðbundin kynferðismök“ sem beinast að ólögráða börnum.

Í fyrra voru þessar takmarkanir rýmkaðar þannig að þær nái til allra aldurshópa í Rússlandi. Tilvísanir í hinsegin einstaklinga hafa verið teknar út úr bókum, kvikmyndum, auglýsingum og sjónvarpsþáttum.

Fyrr í þessum mánuði aflitaði rússnesk sjónvarpsstöð regnboga í suður-kóresku poppmyndbandi, til að forðast það að vera sökuð um að brjóta lög um samkynhneigðan áróður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert