Maður var stunginn til bana og annar særðist í París í kvöld. Heimildarmaður AFP-fréttaveitunnar segir að árásarmaðurinn hafi kallað „Allahu Akbar“ (ísl. Guð er mestur) áður en hann var handtekinn.
Árásarmaðurinn er fæddur árið 1997 og uppalinn í Frakklandi að sögn heimildarmannsins. Hann er sagður hafa glímt við andleg veikindi og þekktur fyrir öfgatrú.
Árásin átti sér stað nærri Eiffel–turninum. Gerald Darmanin innanríkisráðherra greindi frá því á samfélagsmiðlinum X að maðurinn hafi ráðist á óbreytta borgara. Hann biðlaði til almennings að halda sig fjarri svæðinu.