„Gjörsamlega skelfingu lostin“

Þessi mynd er frá jarðskjálftunum 19. nóvember í bænum Malapatan, …
Þessi mynd er frá jarðskjálftunum 19. nóvember í bænum Malapatan, en vitað er um níu dauðsföll vegna þess skjálfta. AFP

Öflugir eftirskjálftar, allt að 6,4 að stærð, hafa riðið yfir á Filippseyjum síðustu klukkustundir eftir skjálfta af stærðinni 7,6 sem reið yfir klukkan 22:37 á staðartíma. Eigendum báta í suðurhluta ríkisins hefur verið fyrirskipað að festa báta sína kyrfilega og flýja svæðið vegna hættu á flóðbylgjum. 

Engar fréttir hafa borist af slysum eða skemmdum en Joseph Lambo, yfirmaður lögreglunnar í Hinatuan, sagði jarðskjálftann hafa verið mjög sterkan.

„Tæki féllu úr hillum við lögregluskrifstofuna og tvö sjónvarpstæki brotnuðu. Mótorhjólin sem lögð voru fyrir utan féllu um koll,“ sagði Lambo við AFP-fréttastofuna.

„Við höfum ekki fengið fregnir af tjóni eða slysum á fólki en fólk er að flýja vegna flóðbylgjunnar.“

Lambo sagði að 45.000 íbúum sveitarfélagsins hafi verið gert að yfirgefa heimili sín og að margir færu gangandi eða á farartækjum upp á hærra landsvæði.

„Við vorum öll í sjokki“

Dyl Constantino, sem er 25 ára, var staddur á Siargao-eyju, norðaustur af Mindanao, þegar skjálftinn reið yfir.

„Þetta var lengsti og sterkasti jarðskjálfti sem ég hef upplifað, og hann hefur líklega staðið yfir í um fjórar mínútur,“ sagði Constantino við AFP.

„Við erum vön jarðskjálftum hérna en þessi var öðruvísi því hurðirnar hristust rosalega og við vorum öll í sjokki.“

Anna Quinones, hjá almannavörnum í Davao-borg, sagði að fylgst væri náið með flóðbylgjunni við ströndina.

„Það er enn háflóð og við erum ekki að taka eftir neinu óvenjulegu,“ sagði hún.

„Ég var öskrandi af hræðslu“

Bethanie Valledor, 24 ára, var sofandi á hóteli í borginni Bislig, um 20 kílómetra suðvestur af Hinatuan, þegar skjálftinn reið yfir og hún vaknaði með andfælum.

„Mér fannst eins og herbergið sem við vorum í myndi eyðileggjast,“ sagði Valledor við AFP.

„Staðurinn okkar er mjög nálægt sjónum. Eigandi gistiheimilisins bað okkur um að rýma strax. Ég var öskrandi af hræðslu. Ég var gjörsamlega skelfingu lostin.”

Skjálftarnir í dag riðu yfir tveimur vikum eftir að skjálfti af stærðinni 6,7 skók Mindanao, en hann varð að minnsta kosti níu manns að bana, hristi byggingar og olli því að hluti af lofti verslunarmiðstöðvar hrundi.

Skjálftar eru daglegt brauð á Filippseyjum sem liggja meðfram eldhringnum sem er öflug jarðskjálfta- og eldvirkni sem teygir sig frá Japan í gegnum Suðaustur-Asíu og yfir Kyrrahafssvæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert