Spítalar á Gasa „eins og í hryllingsmynd“

Slösuð kona faðmar dóttur sína eftir eina af árásum Ísraelshers …
Slösuð kona faðmar dóttur sína eftir eina af árásum Ísraelshers á Gasa-svæðinu. AFP

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) segir spítala á Gasasvæðinu vera hryllingi líkastir og heilbrigðiskerfið að þrotum komið jafnvel áður en átök hófust að nýju í gær, eftir vikulangt vopnahlé.

„Við höfum miklar áhyggjur af því að átökin séu hafin á ný,“ sagði Richard Peeperkorn, fulltrúi stofnunarinnar í Palestínu í samtali við fréttamenn í Genf. Sagði hann svæðið ekki mega við því að missa fleiri spítala í átökunum. 

Gólfið þakið blóði og sjúklingum

Fulltrúar WHO heimsóttu á dögunum Al-Ahli sjúkrahúsið í norðurhluta Gasasvæðisins og sagði Peeperkorn sjónina „eins og í hryllingsmynd.“

Sagði hann varla þverfóta fyrir sjúklingum um allt sjúkrahúsið með suma skelfilegustu áverka sem hægt sé að ímynda sér. 

„Það er hvergi hægt að standa. Gólfið er bara þakið blóði og sjúklingum sem bíða þess að fá lífsnauðsynlega aðstoð.“ 

Maður ritar nafn látins ættingja á líkpoka á Shuhada Al-Aqsa …
Maður ritar nafn látins ættingja á líkpoka á Shuhada Al-Aqsa sjúkrahúsinu á Gasa-svæðinu. AFP

Sjúkraplássum fækkar en þörfin eykst

Aðeins um 18 af 36 sjúkrahúsum svæðisins eru með lágmarksstarfsemi að sögn Peeperkorn, en þrjú stærstu sjúkrahúsin eru nánast algjörlega ónothæf. 

Í suðurhluta Gasa eru 12 sjúkrahús enn starfandi en eru undir gífurlegur álagi að sögn Peeperkorn, en hann segir þau öll skorta nauðsynjar eins og mat, vatn, sjúkrabirgðir og eldsneyti. 

Benti Peeperkorn þá einnig á að sjúkraplássum á Gasa hafi fækkað úr 3.500 niður í 1.562, þrátt fyrir að þörfin hafi aukist gífurlega á síðustu 55 dögum.

109 látnir eftir að árásir hófust að nýju

Mikil átök brutust út á ný í gær, eftir að vikulöngu vopnahléi milli Ísrael og Hamas lauk. Átökin hófust eins og flestum er kunnugt þann 7. október eftir að vígamenn Hamas brutu sér leið í gegnum landamæri Ísraels og myrtu þar 1.200 Ísraelsmenn og numu 240 manns á brott, að sögn yfirvalda í Ísrael.

Ísraelar brugðust við með því að heita því að útrýma Hamas og hleypa af stokkunum linnulausri sókn úr lofti og á jörðu niðri á Gasasvæðið. Hefur sókn þeirra gegn Hamas kostað fleiri en 15.000 mannslíf, þar á meðal 6.000 börn, að sögn Hamas-stjórnarinnar á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka