Að minnsta kosti einn er látinn og tveir slasaðir eftir að jarðskjálfti af stærðinni 7,6 reið yfir suðurhluta Filippseyja í gær. Öflugir eftirskjálftar, allt að 6,4 að stærð, fylgdu í kjölfarið.
Maðurinn var um þrítugt og lést í Bislig-borg í Surigao del Sur-héraði þegar veggur í húsi hans hrundi ofan á hann.
Engar fregnir hafa borist af meiriháttar skemmdum á byggingum eða innviðum hingað til. Sprungur urðu í sumum vegum í borginni en þó var hægt að aka á þeim.
Yfirvöld gáfu út flóðbylgjuviðvörun í kjölfar skjálftanna sem hefur nú verið aflétt.
Tveir slösuðust minniháttar í Tandag-borg, um 100 kílómetrum norður af Bislig. Hamfarafulltrúar í bænum Hinatuan eru enn að skoða hvort skemmdir eða mannfall hafi orðið í þorpum.
Jarðskjálftar eru daglegt brauð á Filippseyjum sem liggja meðfram hinum svokallaða „eldhring“ þar sem er öflug jarðskjálfta- og eldvirkni sem teygir sig frá Japan í gegnum Suðaustur-Asíu og yfir Kyrrahafssvæðið.
Flestir skjálftarnir eru of veikburða til að menn geti fundið fyrir þeim en sterkir og hættulegir jarðskjálftar verða af og til og engin tækni er til staðar til að spá fyrir um hvenær og hvar þeir verða.