Stakk 24 ára ferðamann

Lögreglumenn að störfum á vettvangi árásarinnar.
Lögreglumenn að störfum á vettvangi árásarinnar. AFP/Dimitar Dilkoff

Maðurinn sem var stunginn til bana í París í Frakklandi í gær var 24 ára þýskur ferðamaður, fæddur í Filippseyjum. Var hann úti á kvöldgöngu ásamt eiginkonu sinni þegar árásin varð.

Árásin átti sér stað skammt frá Eiffel-turninum í gærkvöldi og er árásarmaðurinn í haldi lögreglu.

Leigubílstjóri sem varð vitni að árásinni reyndi að grípa inn í. Árásarmaðurinn reyndi svo að flýja undan lögreglu og réðst á tvo aðra með hamri á flóttanum.

Málið er rannsakað sem hryðjuverk.

Dæmdur í fangelsi 2016

Árásarmaðurinn er franskur og fæddur árið 1997. Hann er sagður hafa glímt við andleg veikindi og þekktur fyrir öfgatrú. Hann hefur áður verið handtekinn í tengslum við morðrannsókn og tilraun til manndráps.

Gerald Darmanin innanríkisráðherra sagði að maðurinn hefði verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi árið 2016 fyrir að skipuleggja árás, sem honum tókst ekki að framkvæma. Hann var látinn laus árið 2020 og hefur síðan þá verið undir eftirliti yfirvalda.

Málið er rannsakað sem hryðjuverk.
Málið er rannsakað sem hryðjuverk. AFP/Dimitar Dilkoff

Maðurinn tjáði lögreglu að hann gæti ekki þolað að múslímar væru myrtir í Afganistan og Palestínu, að sögn Darmanin.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur sent fjölskyldu hins látna samúðarkveðjur og segir að réttlætinu verði fullnægt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert