11 göngumenn látnir eftir eldgos

Öskuský yfir eldfjallinu Marapi.
Öskuský yfir eldfjallinu Marapi. AFP/Adi Prima

Ellefu göngumenn fundust látnir og tólf til viðbótar er saknað eftir að eldfjall gaus í Indónesíu.

Björgunarsveitarmenn báru í nótt niður þá sem létust og fleiri sem höfðu slasast.

Leit hafði staðið yfir í alla nótt að tugum göngumanna sem voru fastir á fjallinu Marapi á eyjunni Sumötru eftir að eldgosið hófst með tilheyrandi öskuskýi sem náði þrjú þúsund metra upp í loftið.

Göngumennirnir fundust nálægt gíg fjallsins, sem er 2.891 metra hátt. Mikið öskufall varð í nærliggjandi þorpum.

Þrír fundust á lífi á fjallinu og 49 höfðu komið sér niður af sjálfsdáðum. Einhverjir hlutu brunasár og skrámur, að sögn björgunarsveitarmanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert