Bandarískir hermenn myndu þurfa að verja Evrópu

Lloyd Austin varnarmálaráðherra tekur þinginu vara á að draga úr …
Lloyd Austin varnarmálaráðherra tekur þinginu vara á að draga úr stuðningi við Úkraínu, hann verði aðeins til þess að Pútín færi sig upp á skaftið til að knýja Bandaríkjamenn til að senda her til Evrópu. AFP

Bandaríski varnarmálaráðherrann Lloyd Austin hafði uppi þau varnaðarorð í þinginu í dag að léti löggjafarsamkoma landsins undir höfuð leggjast að samþykkja aukna aðstoð til handa Úkraínu yrðu afleiðingarnar að öllum líkindum viðvera bandarískra hermanna á evrópskri grundu til varnar næstu skotmörkum Vladimírs Pútíns.

Átti ráðherrann þar við ríki hliðholl Atlantshafsbandalaginu NATO og var ómyrkur í máli í ávarpi sínu til þingheims.

„Taki Pútín Úkraínu hefur hann Moldóvu og Georgíu í hendi sér og í framhaldinu ef til vill Eystrasaltsríkin,“ útskýrði Michael McCaul, formaður utanríkismálanefndar þingsins, fyrir vefritinu The Messenger í kjölfar áskorunar helstu hernaðarráðgjafa Bandaríkjaforseta til þingsins um að styðja enn frekar við bak Úkraínumanna í varnarstríði þeirra.

Selenskí forfallaðist

„Hugleiðingar Austins um að ellegar neyðumst við til íhlutunar eru mjög raunhæfar,“ sagði McCaul, „það er það sem við viljum forðast.“

Telur hann einsýnt að kippi Bandaríkin að sér hendinni hvað stuðning við Úkraínu varðar missi bandamenn NATO trúna á bandalagið. „Þá mun enginn treysta okkur aftur,“ sagði hann við The Messenger.

Gert var ráð fyrir að ráðgjafar Bandaríkjaforseta gæfu öldungadeild þingsins skýrslu síðdegis í dag um stöðu mála og hafði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti ætlað sér að vera við þá skýrslugjöf um fjarfundabúnað en þurfti að boða forföll.

Leiðinlegar skýrslugjafir

Fulltrúar demókrata í öldungadeildinni hafa þegar ljáð máls á alvöru þeirrar stöðu er uppi gæti orðið ef dregið yrði úr stuðningi við Úkraínu. Telja þeir að Pútín sæi sér þá í versta falli leik á borði að ráðast á aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og neyða Bandaríkin þar með til að senda heri sína á vettvang í Evrópu.

Repúblikaninn Byron Donalds, þingmaður Flórída í fulltrúadeildinni, kvað skýrslugjöf ráðgjafanna „leiðinlega“ og hafi rúmur hálftími liðið þar til ráðgjafarnir voru reiðubúnir að svara spurningum.

„Þessir gaurar hafa bara uppi ræðuhöld um allt það sem þið eruð að fjalla um í fréttunum,“ sagði Donalds við The Messenger, „við verðum aldrei neins vísari í þessum skýrslugjöfum, þær eru heimskan ein.“

The Messenger

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka