Greina frá netárás og leka í Sellafield

Að sögn heimildarmanna hefur reynst erfitt fyrir Sellafield að greina …
Að sögn heimildarmanna hefur reynst erfitt fyrir Sellafield að greina umfang gagnastuldarins. Ljósmynd/Sellafield

Netárás hefur verið gerð á bresku kjarnorkuvinnslustöðina Sellafield, sem er sú hættulegasta sinnar tegundar í Evrópu.

Hópur tölvuþrjóta á bak við netárásina er sagður tengjast Rússlandi og Kína.

Breska dagblaðið Guardian greinir frá því að starfsmenn Sellafield-stöðvarinnar, sem endurvinnur kjarnkleyf geislavirk efni, hafi markvisst unnið að því undanfarin ár að hylja upplýsingar um netárásir á fyrirtækið.

Lekinn fer versnandi

Dagblaðið greinir einnig frá því að leki sé kominn að risastóru sílói sem geymir geislavirkan úrgang. Lekinn fari versnandi, svo mjög að almenningi gæti stafað hætta af.

Talið er að lekinn muni halda áfram til ársins 2050 og að það geti haft töluverðar afleiðingar ef hann eykst enn frekar.

Áhyggjur af byggingunni, sem tekin er að molna í sundur, og af sprungum í geymslulóni geislavirkrar eðju sem nefnist B30 hafa meðal annars valdið spennu í milliríkjasambandi við Bandaríkin, Noreg og Írland.

Sellafield hýsti áður einnig kjarnorkuver, en því var lokað árið …
Sellafield hýsti áður einnig kjarnorkuver, en því var lokað árið 2003. Myndin er tekin árið 2002. AFP

Íslendingar lengi haft áhyggjur af Sellafield

Sellafield hefur einnig margoft ratað í fréttir hér á landi, ekki síst vegna áhyggja yfirvalda af geislavirkri mengun frá stöðinni. Undir lok síðustu aldar óttuðust margir að geislavirk mengun kynni að renna út í sjó og þaðan norður í höf.

Þrír þing­menn lögðu árið 2012 fram þings­álykt­un­ar­til­lögu þess efn­is að rík­is­stjórn­inni yrði falið að krefjast þess að stöðinni yrði lokað sem fyrst, auk þess að hvetja til þess að ör­yggi yrði aukið þar.

Um­hverf­is­ráðherr­ar Íslands, Írlands, Nor­egs og Aust­ur­rík­is hvöttu til lokunar Sellafield árið 2007.

Árið 2000 tóku þingmenn úr öll­um flokk­um á Alþingi und­ir kröfu um að stöðinni yrði lokað.

Spor í kerfinu rakin allt til ársins 2015 

Samkvæmt upplýsingum sem Guardian hefur undir höndum hafa yfirvöld í Bretlandi ekki upplýsingar um hversu lengi netárásarhópurinn hefur fylgst með tölvukerfi kjarnorkuversins.

Heimildarmenn blaðsins segja þó að hægt sé að greina spor netárásarhópsins í tölvukerfinu allt til ársins 2015. Þá hafi sérfræðingar tekið eftir að spilliforriti, sem má nota til að njósna eða ráðast á tölvukerfi, hafi verið hlaðið upp í tölvukerfi Sellafield. 

Enn hafa ekki fengist upplýsingar um hvort spilliforritinu hafi verið eytt úr tölvukerfinu. Það gæti þýtt að hópurinn hafi komist yfir viðkvæmar upplýsingar um starfsemi Sellafield.

Frá kjarnorkuvinnslustöðinni í Sellafield.
Frá kjarnorkuvinnslustöðinni í Sellafield. AFP

Uppljóstrunin ávöxtur áralangrar rannsóknar

Heimildir Guardian herma að líklegt sé að erlendu tölvuþrjótarnir hafi þegar komist yfir háleynilegar upplýsingar innan úr Sellafield-stöðinni, sem nær yfir sex ferkílómetra á Cumbrian-ströndinni og þykir eitt hættulegasta kjarnorkusvæði í heimi.   

Að sögn heimildarmanna hefur reynst erfitt fyrir Sellafield að greina umfang gagnastuldarins, auk þeirrar viðvarandi hættu sem steðjar að kerfunum, vegna þess að Sellafield hefur ekki gert kjarnorkueftirlitsstofnun landsins viðvart í nokkur ár. 

Uppljóstranir Guardian koma í kjölfar áralangrar rannsóknar blaðsins á netárásum, geislavirkri mengun og eitraðri vinnustaðarmenningu í Sellafield. 

Í rannsókninni kemur meðal annars fram að í Sellafield, þar sem starfa fleiri en 11.000 starfsmenn, hafi á síðasta ári verið gerðar sérstakar ráðstafanir vegna stöðugra bresta á netöryggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert