Ítalía degur sig úr Belti og braut

Forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni.
Forsætisráðherra Ítalíu, Giorgia Meloni. AFP/Andrej Isakcovic

Ítalía hefur formlega dregið sig úr innviðafjárfestingaverkefni Kína sem ber yfirskriftina Belti og braut. Ítalía var eina G7-þjóðin sem hugðist taka þátt í verkefninu þegar farið var af stað með það fyrir fjórum árum. 

Ríkisstjórn Ítalíu tilkynnti Kína um ákvörðunina fyrir þremur dögum síðan, en aðdragandi ákvörðunarinnar hefur verið langur. Ítalska dagblaðið Corriere della Sera greinir frá, en hvorugt ríkið hefur sent frá sér opinbera yfirlýsingu vegna ákvörðunarinnar. 

Drógu sig úr verkefninu án opinberrar yfirlýsingar

Heimildarmaður innan ítalskra stjórnvalda staðfestir í samtali við AFP að stjórnvöld á Ítalíu hafi dregið sig úr verkefninu án þess að senda frá sér nánari upplýsingar. Ríkisstjórnin sendi þó frá sér að halda ætti farvegum stjórnmálaumræðna við Kína opnum.  

Áður en Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, komst til valda á síðasta ári sagði hún að ákvörðun fyrri ríkisstjórnar, um að ganga til liðs við verkefnið árið 2019, hefðu verið „alvarleg mistök“. 

Skilaði ekki þeim árangri sem vonast var eftir

Gagnrýnendur hafa fordæmt fjárfestingaráætlunina, sem hljóðar upp á óheyrilega mikið fé, og segja hana rándýran „trójuhest“ sem miðar að því að kaupa pólitísk ítök. 

Utanríkisráðherra Ítalíu, Antonio Tajani, sagði í september að aðildin „hefði ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir“.

Samningurinn hefði endurnýjast sjálfkrafa í mars á næsta ári, en Ítalía hafði leyfi til lok þessa árs til að segja sig frá honum. Ríkisstjórnin hefur þó verið á varðbergi gagnvart því að ögra yfirvöldum í Kína, af ótta við hefndaraðgerðir gegn ítölskum fyrirtækjum. 

Meloni sagði þó í samtali við blaðamenn á G2-fundinum sem fram fór í Delí í september að það myndi ekki hafa áhrif á samskipti við Kína þó Ítalía myndi draga sig úr verkefninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert