Johnson bað fjölskyldur afsökunar

Boris Johnson við skýrslutökuna í dag.
Boris Johnson við skýrslutökuna í dag. AFP

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, baðst í dag afsökunar á þeim þjáningum og missi sem kórónuveirufaraldurinn olli í Bretlandi. Johnson situr í dag fyrir svörum sérstakrar nefndar sem rannsakar viðbrögð breskra stjórnvalda við faraldrinum. 

Hann hefur verið harðlega gagnrýndur af fyrrverandi samstarfsfólki, m.a. fyrir ákvarðanafælni og fyrir skort á vísindalegri þekkingu á meðan faraldrinum stóð. Hann mun sitja fyrir svörum í dag og svo aftur á morgun. 

Johnson var bolað burt úr stóli forsætisráðherra í fyrra eftir að hafa gerst sekur um að halda teiti í Downingstræti á meðan samkomutakmarkanir voru í gildi. Hann viðurkenndi að mistök hefðu verið gerð en margítrekaði aftur á móti að hann og aðrir embættismenn hefðu gert sitt allra besta í erfiðum aðstæðum. 

„Ég skil hvernig fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra líður og ég er alveg miður mín vegna þess sársauka, missis og þjáningar sem þessi fórnarlömb og fjölskyldur þeirra hafa mátt þola,“ sagði Johnson. 

Margir eru reiðir og sárir út í Johnson og stjórnvöld …
Margir eru reiðir og sárir út í Johnson og stjórnvöld vegna þess hvernig tekið var á málum á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir. AFP

Mótmælendum vísað út

Hann var truflaður um stundarsakir þegar mótmælanda var gert að víkja úr salnum eftir að hafa neitað að setjast niður er Johnson baðst afsökunar. Síðar var fleirum gert að yfirgefa fundarsalinn. 

„Vissulega þá gerðum við mistök,“ sagði Johnson sem bætti við að hann hefði borið persónulega ábyrgð á öllum ákvörðunartökum. 

„Mér fannst við á þessu tímabili [...] vera gera okkar besta við afar erfiðar aðstæður.“

Um miðjan júlí árið 2021 höfðu tæplega 130.000 manns látist af völdum Covid í Bretlandi. Það er eitt hæsta hlutfall látinna í faraldrinum í vestrænum ríkjunum miðað við höfðatölu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert