Alls hafa 17 þúsund manns verið drepnir á Gasasvæðinu, aðallega konur og börn.
Heilbrigðisráðuneyti svæðisins, sem er rekið af Hamas-samtökunum, greindi frá þessu.
Ísraelsher hélt í morgun áfram sókn sinni í kringum helstu borgir Gasasvæðisins. Rúmir tveir mánuðir eru liðnir síðan liðsmenn Hamas fóru yfir ísraelsku landamærin og drápu um 1.200 manns og tóku gísla. 138 þeirra eru enn í haldi, að sögn Ísraela.
Ísraelar brugðust við með því að gera umfangsmiklar loftárásir á Gasasvæðið og ráðast þangað inn með þeim afleiðingum að 17 þúsund manns hafa fallið.
Joe Biden Bandaríkjaforseti lagði í gær áherslu á það í símaspjalli við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, að vernda almenna borgara í átökunum við Hamas.