Vill drög að loftslagssamningi í dag

Ahmed Al Jaber.
Ahmed Al Jaber. AFP/Karim Sahib

Al Jaber, forseti loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP28), hefur hvatt þjóðirnar sem þar koma saman til að ná samkomulagi. Viðræður hófust að nýju í morgun eftir hlé.

Samninganefndir hafa aðeins fjóra daga til að ná samkomulagi vegna notkunar á jarðefnaeldsneyti.

Þrátt fyrir að viðræðum á loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna ljúki sjaldan á réttum tíma vonast Al Jaber til að ráðstefnunni í borginni Dúbaí ljúki klukkan 11 að staðartíma, eða kl. 7 að íslenskum tíma næsta þriðjudagsmorgun.

Ráðherrar eru staddir í borginni til að ná samkomulagi og vonast Jaber til að samninganefndir verði tilbúnar með samningsdrög í dag.

Umhverfissinnar hvetja ráðamenn í Dúbaí til aðgerða.
Umhverfissinnar hvetja ráðamenn í Dúbaí til aðgerða. AFP/Giuseppe Cacace

Þrátt fyrir mismunandi skoðanir um framtíð jarðefnaeldsneytis vonast Jaber til að sögulegt samkomulag muni nást í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

„Við eigum möguleika á því að koma á tímamótabreytingum,” sagði hann. „Við skulum ljúka þessu verkefni. Ég vil að þið takið skrefið upp á við og stígið út úr þægindarammanum,” sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert