Auðkýfingurinn Elon Musk segist ætla að opna aftur fyrir aðgang samsæriskenningasmiðsins Alex Jones á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter.
Musk bjó til könnun þar sem notendur voru spurðir hvort þeir vildu fá Jones aftur á miðilinn. Um 70% kjósenda vildu fá Jones aftur á X.
Jones er hvað þekktastur fyrir að hafa ítrekað farið með ósannar fullyrðingar um andlát fórnarlambanna í skotárásinni í Sandy Hook-grunnskólanum 2012.
20 börn og sex fullorðnir létust í árásinni og sagði Jones að árásin hafi verið „tilbúningur“. Honum var gert að greiða aðstandendum fórnarlambanna 1,5 milljarða bandaríkjadala í bætur af dómstólum þar sem að fjölskyldur fórnarlambanna þurftu að þola áreitni og hótanir í kjölfar ummæla Jones.
Aðgangi Jones að Twitter var eytt árið 2018 eftir brot á reglum um hegðun.
BBC greinir frá því að eftir að Musk keypti samfélagsmiðilinn í október í fyrra neitaði hann að opna aftur fyrir aðgang Jones þrátt fyrir ákall stuðningsmanna hans.
Í gær bjó Musk hins vegar til áðurnefnda skoðanakönnun. Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fékk aftur aðgang að X með sama hætti.