Repúblíkanar og Orbán í eina sæng gegn Úkraínumönnum

Ekki er vitað nákvæmlega hvað fór fram þegar Viktor Orbán …
Ekki er vitað nákvæmlega hvað fór fram þegar Viktor Orbán og Volodimír Selenskí mættust í Buenos Aires í gær. AFP/Alejandro Pagni

Nánir samstarfsmenn Vikto Orbán, forseta Ungverjalands, munu halda lokaða fundi með framámönnum úr repúblíkanaflokknum í Washington næstu daga. Fundarefnið er það hvernig draga megi úr frekari hernaðarstuðningi til Úkraínu.

Breska dagblaðið The Guardian hefur heimildir fyrir þessu. 

Lokaði viðburðurinn sem hófst í dag er skipulagður af Alþjóðamálastofnun Ungverjalands, sendiráði Ungverjalands í Washington og hinni íhöldssömu hugveitu Heritage Foundation.

Á dagskrá fundarins verður málstofa um Úkraínu, auk þess sem rædd verða málefni eins og menningarstríð beggja vegna Atlantsála. Meðal ræðumanna verður Magor Ernyei, sem er áhrifamaður meðal íhaldsmanna í Ungverjalandi.

Kelley Currie, sem var sendiherra í forsetatíð Donalds Trump, segir að sér hafi verið boðið til ráðstefnunnar en að hún hafi afþakkað.

Hart deilt um Úkraínu í Washington

Fundurinn er ekki tilviljun ein, þar sem harðvítugar deilur eru nú í Washington um hvernig haga eigi áframhaldandi stuðningi til Úkraínumanna.

Hvíta húsið gaf frá sér yfirlýsingu í síðustu viku um að ef Bandaríkjaþing grípi ekki til aðgerða svo Úkraínumenn fái frekari vopn og búnað þá sé hætt við því að þeir verði uppiskroppa með hergögn í lok árs. Á miðvikudag stöðvuðu repúblíkanar í öldungadeild Bandaríkjaþings frumvarp um frekari fjárstuðnings til varnarstríðs Úkraínumanna.

Orbán helsti bandamaður Rússa innan ESB

Heimildarmaður Guardian í sendiráði Ungverjalands í Washington sagði: „Orbán er öruggur um það að frekari stuðningur við Úkraínu fari ekki í gegnum Bandaríkjaþing. Þess vegna er hann að reyna að koma í veg fyrir að ESB veiti líka frekari stuðning.“

Orbán hefur verið mjög gagnrýninn á stuðning við Úkraínu og hefur verið lýst sem helsta bandamanni Vladimírs Pútín Rússlandsforseta innan ESB. Voru þeir félagar myndaðir kampakátir í Peking fyrir tveimur mánuðum síðan.

ESB-aðild Úkraínu verði tekin af dagskrá

Nýlega krafðist Orbán þess að ESB aðild Úkraínu væri tekin af dagskrá leiðtogaráðs bandalagsins. Hugveitan Heritage Foundation hefur hleypt af stokkunum verkefninu Project 2025, sem búa á í haginn fyrir því þegar íhaldsöfl taki við stjórn Bandaríkjanna í næstu kosningum.

Meðal þeirra sem nýlega hafa flutt erindi á þeirra vegum eru forystufólk úr breska íhaldsflokknum eins og Liz Truss og Iain Duncan Smith. Gagnrýni Heritage Foundation hefur einkum beinst að því að taumlaust stuðningur Bandaríkjastjórnar við stríðsrekstur í Úkraínu verði til þess að innanríkismál verði vanrækt.

Nú um helgina mættust þeir Viktor Orbán og Volodimír Selenskí í Buenos Aires, þar sem báðir voru viðstaddir embættistöku nýs forseta Argentínu, Javier Milei. Ekki er vitað nákvæmlega hvað þeim fór á milli en Selenskí sagði að þeir hafi rætt málefni Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert