Volodimír Selenskí mun í dag reyna að biðla til Bandaríkjamanna að veita Úkraínu frekari stuðning, þegar fyrri stuðningspakkar renna út í lok árs.
Háværar raddir úr röðum repúblíkana eru andvígar því að Bandaríkin veiti Úkraínumönnum óútfyllta ávísun á frekari stuðning.
Selenskí var í Argentínu nú um helgina, þar sem hann var viðstaddur embættistöku Milei forseta. Hann á að flytja ávarp nú klukkan fimm í Varnarmálaháskólanum í Washington DC. Í kjölfar ávarpsins mun hann eiga fund með varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Lloyd Austin.
Á morgun, þriðjudag, eru fyrirhugaðir fundir með Joe Biden Bandaríkjaforseta og fulltrúum ólíkra fylkinga á Bandaríkjaþingi, þar á meðal nýkjörnum leiðtoga repúblíkana í fulltrúadeild þingsins.
Greina má töluverða andstöðu gegn Úkraínu í stórum hluta repúblíkanaflokksins.
Úkraínumenn hafa reitt sig mikið á hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum í varnarstríði sínu og hafa fengið vopn og skotfæri auk efnahagsaðstoðar frá Bandaríkjunum sem nema tugum milljarða bandaríkjadala.
Nú fer sú aðstoð senn að þverra og hefur Joe Biden haldið fram að frekari aðstoð muni snúast um tilvistarlega baráttu lýðræðisríkja gegn árásargjarnri valdstjórn Vladimírs Pútín Rússlandsforseta.
Öldungadeildarþingmenn úr röðum repúblíkana tókst að stöðva heimild upp á tæplega fimmtán milljarða króna neyðaraðstoð sem Hvíta húsið ætlaði til Úkraínu og Ísraels.
Íhaldsmenn á þingi segjast munu halda áfram að leggjast gegn aðstoð til náinna bandalagsríkja nema að forsetinn fallist á víðtækar breytingar á innflytjendalöggjöfinni. Þær breytingar munu meðal annars beinast gegn öryggismálum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Eins er tekið eftir því að Donald Trump, sem er talinn manna líklegastur til að verða forsetaframbjóðandi repúblíkana árið 2024, hefur snúist mjög gegn málstað Úkraínumanna.