Joe Biden Bandaríkjaforseti mun taka á móti Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í Hvíta húsinu á þriðjudag. Munu forsetarnir tveir funda um brýnar þarfir Úkraínu og mikilvægi áframhaldandi stuðnings Bandaríkjanna.
Einnig mun Selenskí funda með Repúblikananum Mike Johnson, sem er nýr forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Á fimmtudag greiddu Repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings atkvæði gegn beiðni Hvíta hússins um 106 milljarða dala neyðarpakka sem var aðallega ætlaður Úkraínu og Ísrael.
Íhaldsmennirnir voru ósáttir við að ekki fylgdu með í pakkanum umbætur í innflytjendamálum.
Yfirmaður fjárlagaskrifstofu Hvíta hússins hefur varað við því að ef ekki verði samið um fjármagn til Úkraínu fyrir árslok muni það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir Úkraínumenn.