Nokkrir starfsmenn á nýbyggingarsvæði í Sundbyberg, skammt frá sænsku höfuðborginni Stokkhólmi, eru alvarlega slasaðir eftir að vinnulyfta þar á svæðinu féll 20 metra um tíuleytið í morgun að sænskum tíma.
Lögregla og sjúkraflutningamenn komu fljótt á vettvang og höfðu þar mikinn viðbúnað en björgunarþjónustan Räddningstjänsten vill ekki tjá sig um orsök slyssins.
„Hér er mikill viðbúnaður, fjöldi lögreglubifreiða, slökkvilið og ég sá eina sjúkrabifreið yfirgefa svæðið í forgangsakstri,“ sagði Tim Waage, fréttamaður sænska ríkisútvarpsins, sem var á vettvangi í morgun.
Að sögn Anders Bryngelsson, upplýsingafulltrúa lögreglunnar, leikur enginn grunur á að saknæm háttsemi hafi valdið slysinu.