COP28 „nálgast samkomulag“ á uppbótartíma

COP28 er 28. loftslagráðstefna Sameinuðu þjóðanna.
COP28 er 28. loftslagráðstefna Sameinuðu þjóðanna. AFP

COP28-loftslagsráðstefnan í Dúbaí er komin á uppbótartíma þar sem ekki hefur náðst samkomulag um að draga alfarið úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Ráðstefnunni átti að ljúka í dag, þriðjudag, en upp hefur komið ákveðið þrátefli í samningaviðræðum. Aðildarríki bíða nú eftir formlegum drögum að samkomulagi sem eiga að vera tilbúin fyrir klukkan 2 í nótt. Nokkrum stundum seinna verður allsherjarfundur haldinn.

COP28 er 28. loftslagráðstefna Sameinuðu þjóðanna en í ár hefur verið deilt um að notk­un á jarðefna­eldsneyti verði hætt í áföng­um, eða „fasað út“ eins og sumir hafa tekið til orða.

„Við erum að nálgast samkomulag,“ segir viðmælandi AFP-fréttaveitunar sem vinnur náið með Al Jaber, for­seta lofts­lags­ráðstefnunnar.

„Við erum að ná árangri,“ sagði John Kerry, erindreki Bandaríkjanna á ráðstefnunni, við AFP.

Hvergi minnst á að „fasa út“ jarðefnaeldsneyti

Jaber lagði fram tillögu í gær, mánudag, sem minntist ekki á að dregið yrði alfarið úr notkun jarðefnaeldsneytis. Heldur er hvatt til þess að þjóðir „geti“ minnkað notkun og framleiðslu á eldsneytinu. Fjöldi þjóða, þar á meðal Bandaríkin og Evrópusambandsríkin, lagðist alfarið gegn tillögunni.

Í nýjum drögum sem hafa komist í dreifingu er orðinu „geta“ skipt út fyrir „eiga“ og kveður það um að notkun eldsneytisins eigi að fjara út „frá og með þessum áratugi á réttlátan, skipulagðan og sanngjarnan máta“ til þess að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.

Þá er aftur á móti hvergi minnst á að „fasa út“ notkun á jarðefnaeldsneyti. Talsmenn forsetaembættis COP28 segja að það verði aftur á móti ekki hin formlegu drög sem greidd verða atkvæði um. Þá sé Jaber „staðfastur á því að skila útgáfu af textanum sem hlýtur stuðning allra aðila“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert