Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir íslensk stjórnvöld hafa staðið með Úkraínumönnum frá upphafi og að þau muni halda áfram að gera það.
Þetta kom fram í ræðu hennar á blaðamannafundi leiðtoga Norðurlanda og Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í Ósló.
Katrín sagði íslensk stjórnvöld hafa veitt Úkraínu pólitískan stuðning á alþjóðlegum vettvangi. Meðal annars hefðu þau stutt refsiaðgerðir gegn Rússum, sem réðust inn í Úkraínu í febrúar í fyrra.
Hún minntist á að á leiðtogafundi í Reykjavík fyrr á árinu hefði verið gengið frá stofnsetningu tjónaskrár Evrópuráðsins og að vinna í tengslum við hana héldi áfram. Bætti hún við að íslensk stjórnvöld ætluðu að styðja við bakið á Úkraínumönnum næstu árin og tók fram að stríðinu í Úkraínu yrði að linna.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði öll Norðurlöndin standa með Úkraínu og að þau myndu halda áfram að aðstoða þjóðina í stríðinu gegn Rússlandi.
„Pútín þarf að vita að hann má ekki vinna þetta stríð,” sagði hún og bætti við að neyðarpakki upp á tæpan milljarð evra yrði samþykktur á næstunni í Danmörku.
Fleiri Norðurlandaþjóðir ætla að veita Úkraínumönnum aukinn stuðning og á blaðamannafundinum þakkaði Selenskí leiðtogum Norðurlanda kærlega fyrir aðstoðina.
Hann kvaðst sannfærður um að svo lengi sem Evrópa væri sameinuð í baráttunni gegn Rússum myndu hlutirnir enda vel.