„Upphaf endaloka jarðefnaeldsneytis“

Ráðstefnusalurinn á COP28 þéttsetinn í morgun en fulltrúar tæplega 200 …
Ráðstefnusalurinn á COP28 þéttsetinn í morgun en fulltrúar tæplega 200 ríkja sitja ráðstefnuna. AFP/Giuseppe Cacace

Samkomulagið á COP28-loftslagsráðstefnunni, um að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á heimsvísu, er talið upphaf endaloka téðs eldsneytis, eins og yfirmaður loftslagsmála Evrópusambandsins komst að orði.

Samkomulagið nýtur samþykkis tæplega 200 ríkja auk ESB og sparaði dr. Sultan Ahmed Al Jaber, forseti ráðstefnunnar og stjórnarformaður Adnoc, ríkisolíufyrirtækis Sameinuðu arabísku furstadæmanna, ekki hrósið í garð ráðstefnugesta.

„Þið stóðuð ykkur í stykkinu, þið sýnduð sveigjanleika, þið settuð almannahagsmuni ofar sérhagsmunum,“ sagði forsetinn og bætti því við að með samkomulaginu þætti honum sýnt að mannkynið gæti starfað saman en staða Al Jabers sem ráðstefnuforseta og um leið stjórnarformanns Adnoc hefur ekki verið óumdeild og án gagnrýni.

Loksins minnst á fílinn í herberginu

Wopke Hoekstra, yfirmaður loftslagsmála ESB, kvað samkomulagið „löngu löngu tímabært“ og sagði það hafa tekið tæp 30 ár af loftslagsráðstefnum að „komast að upphafi endaloka jarðefnaeldsneytis“.

Í stuttu máli snýst samkomulagið um harðari aðgerðir „þennan mikilvæga áratug“ og gerir ráð fyrir að kolefnisjöfnun náist árið 2050 í þeirri von að með því náist það takmark Parísarsáttmálans frá 2015 að halda hlýnun jarðar undir 1,5 gráðum miðað við meðalhitastig eftir iðnbyltingu en hlýnunin nemur nú þegar 1,2 gráðum og hafa vísindamenn gefið það út að árið 2023 hafi líklega verið það heitasta á jörðu í 100.000 ár með tilheyrandi náttúruhamförum.

„Loksins höfum við minnst á fílinn í herberginu,“ sagði Mohamed Adow, framkvæmdastjóri hugveitunnar Power Shift Africa, „andinn fer aldrei aftur ofan í flöskuna og COP-ráðstefnur framtíðarinnar munu ekki gera annað en að sauma enn fastar að óhreinum orkugjöfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert