Bjóða Úkraínu að hefja viðræður um aðild að ESB

ESB hefur ákveðið að hefja aðildarviðræður við Úkraínu og Moldavíu.
ESB hefur ákveðið að hefja aðildarviðræður við Úkraínu og Moldavíu. AFP

Leiðtogaráð Evrópusambandsins hefur samþykkt að bjóða Úkraínu og Moldóvu að hefja viðræður um aðild að ESB. 

Að sögn talsmanns Charles Michel, forseta leiðtogaráðs ESB, var um einróma ákvörðun að ræða.

Í umfjöllun BBC segir að ákvörðunin hafi verið tekin á leiðtogafundi ESB í Brussel. Þá er  Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagður hafa fagnað áfanganum sem sigri fyrir bæði Úkraínumenn og Evrópubúa. 

„Þetta er sigur fyrir Úkraínu. Sigur fyrir alla Evrópu. Sigur sem hvetur, veitir innblástur og styrkir,“ sagði Selenskí í færslu sem hann birti á X-síðu sinni í kjölfar þess að ákvörðunin leit dagsins ljós. 

Yfirgaf salinn

Ungverjar höfðu áður hótað að beita neitunarvaldi við ákvörðunina. Samkvæmt heimildum AFP-fréttaveitunnar samþykkti Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, að yfirgefa salinn á meðan ákvörðunin var samþykkt. 

Orban birti færslu á X í kjölfar þess að niðurstaðan var kunngjörð að um slæma ákvörðun hefði verið að ræða.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert