Þrír handteknir í Danmörku

Peter Dahl, yfirmaður öryggismála hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn og Flemming …
Peter Dahl, yfirmaður öryggismála hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn og Flemming Dreier, yfirlögregluþjónn hjá dönsku öryggislögreglunni, PET, á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn í morgun. AFP

Þrír einstaklingar hafa verið handteknir í Danmörku og einn í Hollandi í tengslum við umfangsmiklar aðgerðir, sem lögreglan í Danmörku stóð fyrir í morgun í samvinnu við lögregluembætti í öðrum löndum. Grunur leikur á að hryðjuverkaárás hafi verið í undirbúningi. 

Á blaðamannafundi fyrir stund sagði lögreglan að síðar í dag yrði farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum á grundvelli laga um varnir gegn hryðjuverkum. Rannsókn málsins stendur enn yfir. Lögreglan vildi ekki veita nánari upplýsingar um málið og að hverjum hugsanlegar árásir hefðu átt að beinast og sagði að krafan um gæsluvarðhald yfir mönnunum yrði lögð fram í dómi fyrir luktum dyrum. 

Fram kom hjá Flemming Drejer, yfirlögregluþjóni hjá dönsku öryggislögreglunnar, PET, að fimm lögregluembætti hefðu komið að aðgerðunum í morgun. Markmiðið hefði verið að handtaka þrjá einstaklinga og þeir væru allir í haldi. 

Dreier sagði að um væri að ræða aðgerðir gegn samtökum, sem hefðu tengsl við önnur lönd og hefðu verið að undirbúa hryðjuverkaárás. Hann lagði áherslu á að gripið hefði verið snemma inn í málið. Það tengdist skipulagðri glæpastarfsemi, meðal annars dönsku samtökunum  Loyal To Familia. 

Peter Dahl, yfirmaður öryggismála hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn, sagði að lögreglan yrði sýnilegri en venjulega á jólamörkuðum og knattspyrnuleikjum en hvatti jafnframt landsmenn til að halda ró sinni. „Það er öruggt að búa í Kaupmannahöfn og svo verður áfram,“ sagði hann.  

Hættustig vegna hryðjuverkaógnar er nú á 4. stigi af fimm í Danmörku og fram kom á blaðamannafundinum að það yrði ekki hækkað vegna þessa máls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert