14 flugvallarstarfsmenn handteknir á Tenerife

14 flugvallarstarfsmenn á Tenerife hafa verið handteknir.
14 flugvallarstarfsmenn á Tenerife hafa verið handteknir. AFP/Desiree Martin

Spænska lögreglan hefur handtekið fjórtán flugvallarstarfsmenn á Tenerife South-flugvellinum. Lagði lögregla enn fremur hald á þýfi að verðmæti 2 milljóna evra. 

AP-fréttaveitan greinir frá og segir lögreglu einnig hafa lagt hald á um 13 þúsund evrur í peningum. 

Um 20 aðrir starfsmenn á flugvellinum eru til rannsóknar vegna málsins. 

Árlega fara um 11 milljónir farþega í gegnum flugvöllinn, flestir hverjir eru Evrópubúar í sólarfríi. 

Íslendingar orðið fyrir barðinu á þjófunum

Spænska lögreglan hóf rannsókn á flugvellinum eftir að tilkynningum um að eitt og annað vantaði í farangur farþega tók að fjölga. Morgunblaðið og mbl.is hafa meðal annars fjallað um slíkar tilkynningar. Íslendingar hafa meðal annars orðið fyrir barðinu á þjófunum.

Var grunur um að þjófnaðurinn ætti sér stað er verið væri að færa farangur um borð í vélarnar. 

Á meðal þess sem lögregla haldlagði voru 29 armbandsúr af dýrari gerðinni, 120 skartgripir, 22 farsímar og kynstrin öll af raftækjum. Grunur leikur á að þýfið hafi verið selt á netinu eða í verslanir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert