Ísraelsher hefur hert mjög sókn sína í suðurhluta Gasa og segja heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem stýrt er af Hamas-hryðjuverkasamtökunum, að tugir manna hafi fallið og særst í árásum Ísraelshers á borgina Khan Yunis í nótt.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir að ekkert lát verði á árásum Ísraelsmanna fyrr en búið verði að uppræta Hamas-hryðjuverkasamtökin og utanríkisráðherrann lét hafa eftir sér í gær að stríðið gegn Hamas-liðum muni standa yfir næstu mánuði.
Samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu á Gasa hefur stríðið kostað meira en 18.700 manns lífið, aðallega konur og börn. Það hófst 7. október þegar Hamas-hryðjuverkasamtökin gerðu árás á Ísrael og drápu 1.200 manns, aðallega óbreytta borgara.
Talsmenn ísraelska hersins greindu frá því í dag að frá því árásir hófust á jörðu niðri hafi 117 ísraelskir hermenn fallið.