Franski leikarinn Gerard Depardieu var í dag sviptur heiðursmerki belgíska héraðsins Estaimpuis. Depardieu bjó þar árið 2013 og hlaut heiðursmerkið sama ár.
Var þetta ákveðið í kjölfar ummæla Rimu Abdul Malak, menningarmálaráðherra Frakklands, sem lýsti því nýverið yfir að stjórnvöld skoði nú að svipta leikarann æðstu orðu Frakklands.
Depardieu er 74 ára og var ákærður fyrir nauðgun árið 2020 en hann hefur alls þrettán sinnum verið sakaður um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi. Í september bættist við enn ein kæran á hendur Depardieu sem neitar sök.
Depardieu hefur sætt mikilli gagnrýni eftir að sjónvarpsstöðin France 2 sýndi frá ferð leikarans árið 2018 til Norður Kóreu. Þar lét hann út úr sér kynferðisleg ummæli við kvenkyns túlk og sagði kynferðislega hluti um smástelpu á hesti.
Gerard Depardieu er talinn til stærstu nafna franskrar leiklistar, nefndur í sömu andrá og Alain Delon og Brigitte Bardot. Hann hefur leikið í ríflega 200 kvikmyndum en afrek hans falla nú í skugga fjölda hneykslismála.